148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[15:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er um margt athyglisvert frumvarp. Ég hef sagt það áður, m.a. í útvarpsþætti með hv. þm. og 1. flm. Silju Dögg Gunnarsdóttur að þetta er mál þvert á flokka, þvert yfir allt samfélagið og er áhugavert hvernig við leysum það út frá heimspeki og trúfrelsi og að borin sé virðing fyrir því hvernig maður fæðist, hver einstaklingur. Ef umskurður drengja tengdist ekki beint trúarathöfnum og trúfrelsi værum við ekki að diskútera þetta, þá væri þetta bara eitthvað sem við tækjum öll undir. En það gerir það.

Ég viðurkenni að ég vil gjarnan fá meiri umræðu um þetta í samfélaginu. Ég vil gjarnan að haldið verði málþing og að við reynum að kryfja þetta betur og lengur en þessar vikur hér í þinginu. Að því sögðu finnst mér mikilvægt að draga fram að trúfrelsi yfirtrompar ekki rétt einstaklinga til að vera þeir sjálfir allt frá fæðingu. Það er síðan þeirra, þegar þeir eru 18 ára, að ákveða hvernig þeir verða og hvað þeir ætla að gera.

Á hinn bóginn finnst mér, eins og margir hafa bent á, að verið sé að glæpavæða þessa athöfn. Það er það yfirbragð sem tengist líka umræðunni um trúfrelsi sem mér finnst miður. Ég vil því spyrja hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur hvort hún sé sammála mér um að það verði skoðað hvort þetta eigi að vera í almennum hegningarlögum. Er hægt að hafa þetta annars staðar í lögum þannig að það sé skýrt kveðið á um það, eins og (Forseti hringir.) hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson kom inn á áðan, að við höfum ákveðin prinsipp varðandi aðgerðir á nýfæddum börnum? Fyrsta spurningin, og síðari koma á eftir: Á þetta virkilega heima í almennum hegningarlögum?