148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[15:45]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur um það að umræðan í dag hefur verið mjög góð og málefnaleg. Hér hafa menn, flestallir, sleppt furðulegum fullyrðingum. Mig langar líka til að taka undir það með þingmanninum að hlutverk Alþingis er mjög mikilvægt. Sumir hafa einmitt sagt við mig og hv. þingmann: Af hverju að taka þetta mál, af hverju ekki hitt og annað? Við erum náttúrlega með fjölmörg mál hér til umfjöllunar hverju sinni. Þó að þetta mál hafi fengið umtalsverða athygli er ekki þar með sagt að þetta sé eina málið sem við erum að tala um hér í þingsölum. Við þingmenn þurfum að vera leitandi og þurfum að vera opin og horfa á hvað er að gerast í öðrum löndum til að við getum þróað okkar eigið samfélag. Það er okkar hlutverk að draga flóknar og erfiðar umræður hingað inn í þingsalinn. Okkar starf snýst ekki bara um það að afgreiða lagfæringar á gömlum lögum frá ráðherrum. Það er ekki okkar hlutverk. Við eigum að taka umræðuna og reyna á okkur. Við eigum að vera opin.

Sumir hafa sagt hér í dag að málið þurfi að þroskast. Ég tek undir það. Ég bind miklar vonir við nefndavinnuna sem er fram undan, að þar fáum við úr þessum hlutum skorið sem við erum að veltast með, með refsirammann og hvort þetta sé nú þegar bannað eða hvernig við myndum bregðast við ef þetta kemur upp. Ég tel að þetta sé akkúrat rétti vettvangurinn. Ég held að fleiri blaðagreinar og fleiri komment á Facebook komi okkur ekki áfram í þessari umræðu. Alþingi er rétti vettvangurinn. Ég vil bara segja að ég er að mestu leyti mjög ánægð með þá sem hafa talað um þetta. Ég þakka fyrir það.