148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[15:44]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að taka þátt í umræðu um skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi sem kom út í október sl. Ég tel brýna þörf á að ræða efni skýrslunnar, sem er afskaplega ítarleg og yfir 50 blaðsíður að stærð, enda koma þar fram fjölmörg varnaðarorð til stjórnvalda. Í ræðu minni leitast ég við að greina í sundur þau viðfangsefni sem lögregluyfirvöld standa frammi fyrir og beina kastljósinu að í skýrslunni.

Ég vil hefja mál mitt á fyrstu setningu í skýrslu greiningardeildar: „Áhættustig vegna skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi er mikil áhætta.“ Þetta er háalvarlegt áhættumat og ber að taka sem ákall af hálfu lögreglunnar um að bregðast við. Það er lögregluyfirvalda að benda á vandann en það er í höndum yfirvalda og okkar stjórnmálamanna að bera ábyrgð á viðbrögðunum.

Í upphafi tel ég rétt að vitna beint í skýrsluna á bls. 7, með leyfi forseta. Þar segja skýrsluhöfundar:

„Skipulögð glæpastarfsemi hefur grafið um sig og er umfangsmikil á Norðurlöndum. Áhrif þessa á samfélagið eru margvísleg og öll neikvæð.“

Það rammar ágætlega inn áherslu við umræðuna hér í dag. Lögreglan er ein af grunnstoðum lýðræðisskipulagsins og verður að búa yfir þeim styrk sem nauðsynlegur er svo hún geti sinnt hlutverki sínu. Í skýrslunni er fjallað um stöðu lögreglunnar til þess að takast á við vandamálið og á næstum hverri einustu blaðsíðu kemur fram mannaflaskortur í lögreglunni. Á bls. 47 segir, með leyfi forseta:

„[Það er] mat lögregluliðanna í landinu að lögregluna skorti bæði fjármagn og mannafla til þess að sinna frumkvæðislöggæslu með fullnægjandi hætti sem er einn mikilvægasti þátturinn í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi.“

Hér á þingi hef ég og fleiri rætt nauðsyn þess að fjölga lögreglumönnum og er óþarft að endurtaka það allt saman. En svo enginn fari í grafgötur með það þá hefur lögreglumönnum fækkað nánast allar götur frá upphafi þessarar aldar. Það gerist á sama tíma og verkefnum á borði lögreglu fjölgar og álag eykst vegna nýrra viðfangsefna. Í því sambandi má nefna hluti sem augljósir eru, svo sem fjölgun íbúa, margfalda fjölgun ferðamanna, stóraukið erlent vinnuafl, fjölgun aðfluttra, aukna alþjóðavæðingu, framfarir í nettækni, aukningu netverslunar, aukna notkun samskiptamiðla o.s.frv.

Því er nauðsynlegt að staldra við efni þessarar skýrslu sem lýsir aðsteðjandi ógnum, og huga að framhaldinu.

Lögreglan metur það svo að nú þegar hafi skipulagðir glæpahópar búið um sig hér á landi og hafi yfir að ráða umtalsverðum styrk. Og eftir því sem þeir verða öflugri verður erfiðara fyrir lögregluna að sporna við starfsemi þeirra.

Hluti af þeim veruleika er sú staðreynd að hóparnir leitast við með fjárhagslegum styrk að fela ágóða sinn í löglegri starfsemi.

Í árdaga lögreglunnar hafði hún í raun það einfalda verkefni að handtaka ofbeldismanninn og stöðva með því brotið, ná í þjófinn og endurheimta þýfið. Í smáu samfélagi þekkti lögreglan viðskiptavini sína og gekk stundum næstum beint að þeim ef eitthvað kom upp. Sá veruleiki er smám saman að hverfa með auknu þéttbýli, örri fólksfjölgun og tækniframförum, en ekki síður með því að samfélag okkar allt er alls ekki eins einsleitt og fyrir nokkrum árum. Hér er talaður fjöldi tungumála og bakgrunnur íbúa er að verða verulega ólíkur innbyrðis. Allt það gerir samfélagið flóknara, einnig fyrir lögregluna þegar hún er að kljást við afbrot. Sýnu verst er þegar afbrotamenn bindast samtökum og verða skipulagðari í ólöglegri starfsemi sinni, jafnvel oft landa á milli. Staðan er sérstaklega erfið ef slík samtök hafa til að bera mikla sérhæfingu, aðlögunarhæfni og fjármagn. Drifkrafturinn er ágóðavon og andvaraleysi yfirvalda. Það er það eldsneyti sem knýr vilja þeirra sem fremja afbrot.

Hvað er ég að tala um? Ég er að tala um að í skýrslu þeirri sem við fjöllum hér um bendir lögreglan á nákvæmlega þetta: Hún bendir á sterkar vísbendingar um að skipuleg glæpasamtök séu komin hingað til lands og ef ekkert verði að gert vaxi þeim einungis ásmegin.

Förum yfir vísbendingar um umfang skipulegrar glæpastarfsemi. Ég sé að tíminn er að verða búinn, en ég ætla að nefna það hratt: Það er smygl á fólki, mansal, vændi, fíkniefni og auðgunarbrot. Nýlegar fréttir um auðgunarbrot, um skipuleg innbrot um hábjartan daginn inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu renna stoðum undir það.

Megininntak og helsti boðskapur skýrslunnar er í fyrsta lagi lýsing á vaxandi umfangi skipulagðrar brotastarfsemi hér á landi, langoftast með erlendum tengingum. Í öðru lagi eindregin skilaboð um að lögreglan sé vanbúin til þess að sinna þessu verkefni þrátt fyrir góðan vilja. (Forseti hringir.) Hér fer ekki saman hljóð og mynd.

Ég hef ekki tíma til að lesa upp spurningarnar. Þær eru til í prentuðu formi.