148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[15:50]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir áhugann á þessu máli og fyrir umfjöllunina hér. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni um að þessi skýrsla ríkislögreglustjóra er grafalvarlegt mál, en hún hefur legið fyrir síðan á haustdögum á síðasta ári. Þar fram kemur að áhættustig vegna skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi er mikið, eins og hv. þingmaður nefndi. Hér er mikil áhætta, rautt viðbúnaðarstig. Það er áhyggjuefni.

Ég vil líka geta þess í upphafi, vegna þess að umræðan á Íslandi um þessi mál hefur oft og tíðum verið örlítið sakleysisleg á köflum, ef ég má leyfa mér að segja það, ég ætla nú ekki að nota orðið barnaleg, og er alveg full ástæða til þess að þingmenn og aðrir sem þekkja þetta efni miklu betur, átti sig á því að Ísland er ekki á nokkurn hátt undanskilið þeirri áhættu sem önnur lönd í kringum okkur standa frammi fyrir í þessum efnum. Það er alveg ástæðulaust að ætla annað en að þau vandamál og þær hættur sem að steðja nágrannalöndum okkar berist hingað með sama hætti. Þess vegna er mjög mikilvægt að við séum undir það búin með öllum þeim tiltæku ráðum sem liggja fyrir.

Í kjölfar útkomu skýrslunnar fundaði ráðuneytið með ríkislögreglustjóra og ræddi m.a. um hvernig bregðast ætti við efni hennar. Sjálf er ég í góðu sambandi við ríkislögreglustjóra og lögregluembættin og ræði mjög reglulega m.a. um þessi mál. Fram kemur í skýrslu greiningardeildarinnar að frumkvæðisvinna sé sú aðgerð sem lögreglan telji að sé best til þess fallin að koma í veg fyrir skipulagða brotastarfsemi. Þar eru nefnd fleiri atriði eins og farþegalistagreining og áhersla á upptöku ólögmæts ávinnings af brotum.

Einnig kemur fram í skýrslunni að lögreglu skorti mannafla til að sinna framangreindum verkefnum en það kemur okkur ekkert á óvart sem hér erum. Það ákall frá lögreglunni að efla þurfi löggæsluna í landinu er svo sem bara framhald af umræðunni sem við áttum hér í síðustu viku þar sem við ræddum sérstaklega um löggæsluna. Ég fór þá yfir áform um að efla hana með fleiri lögreglumönnum í ýmsum störfum lögreglunnar.

Auðvitað hefur verið ráðist í ýmsar aðgerðir og ég kynnti þingheimi í síðustu viku hvernig við höfum lagt drög að því að fjölga rannsóknarmönnum á tilteknu sviði afbrota. Ég held að það sé mjög mikilvægt og ekki seinna vænna.

Hv. þingmaður spyr líka um til hvaða ráða sé unnt að grípa til að koma í veg fyrir að erlendir glæpahópar nái hér fótfestu. Það er samt rétt að árétta að fram kemur í skýrslunni að skipulögð glæpastarfsemi er ekki eingöngu að hálfu erlendra glæpahópa heldur er hér líka skipulögð glæpastarfsemi að hálfu Íslendinga.

Fjallað er mjög ítarlega um að ákveðnir þættir séu til þess fallnir að laða að sér erlenda glæpahópa. Sérstaklega er nefnt í skýrslunni að framkvæmd stefnu íslenskra stjórnvalda á undanliðnum misserum hafi verið til þess fallin að auka aðdráttarafl Íslands sem áfangastaðar fyrir farandfólk frá Evrópu í leit að betri lífskjörum. Svo er fjallað um að þetta fólk, einnig það sem leitar hingað vegna bágrar stöðu eða neyðar, sé oft og tíðum útsettara en aðrir fyrir því að verða fórnarlömb skipulagðrar glæpastarfsemi. Til þess lítum við alveg sérstaklega og höfum gripið til ýmissa aðgerða í þeim efnum.

Svo er spurt um löggæsluáætlunina. Hún er og hefur reyndar verið tilbúin og fullgerð nokkuð lengi. En ég tel að hún þarfnist þó einhverrar endurskoðunar í samráði við lögregluembættin í landinu. Verið er að vinna að áætluninni og mun ég leggja hana fram á haustþingi.