148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[16:03]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni, fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp. Ég vil einnig þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans þó að ég telji að gera þurfi enn betur en ráðherra fór ágætlega yfir hér áðan.

Þetta er mjög mikilvægt mál og sýnir skýrslan og sannar að skipulögð glæpastarfsemi er komin með allar sínar klær um allt, líka hér á landi. Þegar ég las skýrsluna hjó ég sérstaklega eftir því að greiningardeildin hefur áður vakið athygli á því að lítil löggæsla er á landsbyggðinni, að það skapi til dæmis glæpahópum tækifæri til framleiðslu fíkniefna og lögreglan hefur ítrekað stöðvað slíka framleiðslu á landsbyggðinni. Það er einnig sláandi að afskipti lögreglu í formi frumkvæðislöggæslu eru takmörkuð vegna manneklu.

Einnig er nauðsynlegt að vekja athygli á því hvort ekki þurfi að auka samstarf lögreglu og tollgæslu og þá líka með tilliti til gátta inn í landið, bæði í lofti og sjóleiðina. Þó svo að víða á landsbyggðinni verði ekki vart við skipulagða hópa er þrátt fyrir allt allt til staðar til að slíkir hópar geti skotið rótum og hafið þar starfsemi, einmitt þar sem löggæslan er minni.

Það er annað atriði skýrslunnar sem ég vil ræða en það er mansal og vændisstarfsemi sem virðist hafa vaxið hér. Það er hrikalegt til þess að hugsa að konur sem hingað hafa komið í leit að vernd séu fórnarlömb mansals. Enn og aftur má sjá að mannekla er helsta ástæða þess að þessi starfsemi dafnar. Það er grafalvarleg staða, það er ljóst. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á því.