148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[16:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er mikilvæg. Hugtakið skipulögð glæpastarfsemi hefur verið okkur Íslendingum tiltölulega framandi. Við höfum haft tilhneigingu til að trúa því að á ferðinni væru vandamál sem ekki væru til staðar á Íslandi, raunin er því miður önnur. Eins og komið hefur fram hefur skipulögð glæpastarfsemi fest rætur á Íslandi og það sem verra er, greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur metið áhættustigið vegna skipulagðrar glæpastarfsemi hátt. Þetta er mikið áhyggjuefni.

Ég vil beina máli mínu að landsbyggðinni eða dreifbýlinu í þessu samhengi. Á landsbyggðinni er löggæslan því miður allt of lítil. Í sérstakri umræðu hér þinginu fyrir skömmu, um löggæsluna, kom fram að lögreglumönnum fækkar alls staðar á landsbyggðinni, á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Suðurnesjum svo að dæmi séu tekin. Í skýrslu greiningardeildar kemur skýrt fram að dreifbýli, þar sem lítil löggæsla er, skapar þessum hópum, þessum afbrotahópum, tækifæri hvað varðar ræktun og framleiðslu á fíkniefnum og jafnvel vinnumansali.

Rannsóknir á skipulagðri glæpastarfsemi eru mjög seinlegar og flóknar. Hér er verið að eiga við flókin kerfi og það er mikilvægt að við sem hér erum veitum þá aðstoð sem við getum veitt og er nauðsynleg eins og að tryggja nægilegt fjármagn og rýmka heimildir til rannsókna.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í allmörg ár verið ábyrgur fyrir málefnum löggæslunnar í landinu. Ég verð að segja það hér að mér finnst skorta á skilning Sjálfstæðismanna á mikilvægi þessa málaflokks. Það er ekki nóg að tala um mikilvægi þess að styðja vel við bakið á lögreglunni og gera svo ekkert í því. Það er ekki eins og þetta vandamál sé nýtt af nálinni.

Miðflokkurinn lagði til að auka fjárveitingu til lögreglunnar við afgreiðslu fjárlaga fyrir síðustu jól. Lagt var til að setja 250 milljónir aukalega til rannsókna gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Skref í rétta átt. Tillagan var felld. Hún var felld af ríkisstjórnarflokkunum, Sjálfstæðisflokknum, hæstv. dómsmálaráðherra, Framsóknarflokknum og Vinstri grænum. Svo kemur (Forseti hringir.) hæstv. dómsmálaráðherra hér sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar og talar um mikilvægi þess að unnið sé gegn skipulagðri glæpastarfsemi; fékk tækifæri til þess og sagði þá nei.