148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni.

244. mál
[17:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Ég vil byrja á spurningu hv. fyrirspyrjanda varðandi þessa stöðu sem ég held að fólki sé ekki ljós og mér var hún að minnsta kosti ekki ljós fyrr en ég heyrði í þeim sem hafa þurft að glíma við þá stöðu að hafa ekki efni á að fá fastlaunamenn til starfa vegna þess að það sé ódýrara í einhverjum tilvikum að vera með verktakalækna. Meðan stofnanirnar fá það ekki bætt er enginn hvati til þess beinlínis að leitast við að fá fastlaunamenn til starfa. Þetta varð mér verulegt umhugsunarefni og mér finnst þetta eitthvað sem þarf að skoða áfram.

Hv. þingmaður spurði um greiðslukerfið sem hefur gefist vel hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Já, það er eitthvað sem við viljum sjá möguleika á að færa út um land. Það er til skoðunar. Ég hitti Félag heilsugæslulækna á vinnufundi þeirra á fimmtudaginn var, þar sem gafst einstakt tækifæri til að heyra hvaða áhyggjur það væru sem heilsugæslan deilir um allt land. Það eru auðvitað þær sem hér hefur líka verið vikið að varðandi mönnun heimilislækna, einfaldlega. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson nefndi menntun heimilislækna. Það er minn vilji að bæta umbúnaðinn um þau mál og fjármagna aukna menntun heimilislækna. Bent hefur verið á að það komi til skoðunar að efla sem sérstaka sérgrein eða styrkja þann þátt heimilislækninganna sem lýtur að héraðslækningum eða lækningum úti um land. Það eru raunar okkar áform í ríkisstjórninni að leggja sérstaka áherslu á þann þátt því að það er ákveðin sérstaða sem þessir læknar búa við.

Hv. þm. Vilhjálmur Árnason talaði um fordæmalausa fjölgun. Ég tek undir að þetta er ótrúlega mismunandi staða heilbrigðisumdæmanna sem þarf að horfa til.

Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson spyr af hverju við gátum þetta áður en ekki núna. Þetta er spurning sem við þurfum að leita svara við. Ég hef ekki svarið núna þegar (Forseti hringir.) tími minn er búinn; þótt ég sé góð í að tala hratt get ég ekki talað á innsoginu þannig að tíminn eyðist á meðan ég er að tala. Ég verð að láta þetta duga, virðulegi forseti.