148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

minnkun plastpokanotkunar.

271. mál
[18:30]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Átt hefur sér stað vitundarvakning víða um heim varðandi plast, líka hér á landi. Til dæmis hefur sveitarfélagið Stykkishólmur gengið þar fram fyrir skjöldu og bannað notkun á plastpokum. Það hefur gengið vel. Það er sem sagt alveg hægt að banna plastpokanotkun.

Þegar kemur að því að fylgja eftir þeirri þingsályktunartillögu sem samþykkt var — upphafsmaður þeirrar tillögu var raunar þingmaður Samfylkingarinnar, Margrét Gauja Magnúsdóttir — má kannski lýsa svörum hæstv. ráðherra með orðalagi sem ég hjó eftir í máli hans: „stóð til … en tókst ekki.“

Ég held að við þurfum að grípa til miklu róttækari aðgerða í því að banna plastpokanotkun á landsvísu og segja að tími samráðs og samræðna sé liðinn.