148. löggjafarþing — 34. fundur,  6. mars 2018.

störf þingsins.

307. mál
[13:54]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Í gær birtist könnun í Fréttablaðinu meðal Reykvíkinga um Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni. Þar kemur fram að 59% Reykvíkinga vilja halda flugvellinum í Vatnsmýrinni, 11% eru hlutlaus og þeir sem vilja að völlurinn fari eru um 30%. Í sambærilegri könnun Fréttablaðsins frá því í haust meðal allra landsmanna kom fram að 74% landsmanna vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni.

Á næstu dögum mun ég leggja fram tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Spurningin sem ég hyggst leggja fram er:

Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlandsflugs, -kennslu og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafn góður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar?

Við gefum þannig þjóðinni möguleika á að segja já eða nei við þessari einföldu spurningu. Ég hyggst koma með þessa tillögu á næstu dögum og mun senda hana öllum þingmönnum, gefa öllum þingmönnum kost á að vera meðflutningsmenn að þessari þingsályktunartillögu.