148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[17:07]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið lögð fram vantrauststillaga á dómsmálaráðherra. Þessi tillaga kemur til af skipun dómara í Landsrétt, sem er nýtt og mikilvægt dómstig hér á landi. Það er meginregla að stjórnvald sem skipar í opinbert starf eða embætti ber hverju sinni að velja hæfasta umsækjandann. Þau atriði sem þar skipta máli þurfa að vera nægilega upplýst og hafði margumrædd dómnefnd það hlutverk með höndum. Margt er hægt að segja um vinnubrögð þeirrar nefndar og hef ég áður komið að því í ræðustóli Alþingis og tel að finna eigi nýja aðferð við að velja dómara til starfa hér á landi. Sérstaklega geri ég athugasemdir við aðferðir við útreikning nefndarinnar og tel hann afskaplega brothættan og tilviljanakenndan um hver útkoman er hverju sinni. Það þarf ekki nema að hnika til vægi einstakra þátta um örfá stig eða einkunnagjöf, þá er útkoman allt önnur og gjörbreytt. Einkunnagjöfin sjálf er sérstakt úrlausnarefni og hefur sætt mikilli og réttmætri gagnrýni. En gott og vel.

Ef ráðherra hyggst hins vegar víkja frá áliti þeirrar dómnefndar er það grundvallaratriði að hann reisi slíka breytingu frá álitinu á frekari rannsókn á umsækjendum og hæfi þeirra. Skyldi ráðherra því bera saman hæfni þeirra fjögurra umsækjenda, sem nefndin taldi vera meðal þeirra 15 hæfustu, og hinna fjögurra sem ráðherrann lagði til að skipa ætti í þeirra stað. Hæstiréttur taldi að ráðherra hefði ekki gert þetta og taldi það andstætt stjórnsýslulögum enda ekki síðar bætt úr þessum annmörkum. Því er ljóst að ráðherra fór ekki að lögum í athöfnum sínum við þessa skipun og tillögugerð til Alþingis.

Hæstv. ráðherra er með þennan dóm á bakinu, auk þess sem hún leyndi upplýsingum fyrir Alþingi á sínum tíma. Og nú eftir þessa niðurstöðu málsins ríkir veruleg og óþolandi óvissa um dóma Landsréttar og lítur út fyrir að málið fari ekki bara fyrir Hæstarétt heldur einnig út fyrir landsteinana til Evrópu. Sú staða er auðvitað pínleg og með öllu óásættanleg fyrir réttarkerfið. Má velta því fyrir sér hver staðan sé ef vantraust á hæstv. dómsmálaráðherra verður samþykkt hér í dag. Ég tel engum vafa undirorpið að þá sé þessi ríkisstjórn fallin, henni er ekki sætt og þarf þá að mynda nýja ríkisstjórn í landinu.

Við höfum orðið þess áþreifanlega vör að núverandi ríkisstjórn er mynduð um kyrrstöðu og þrælsetu ráðherra og þó að fallega sé talað um það fólk sem eru umbjóðendur Flokks fólksins hefur ríkisstjórnin ekki stutt sjálfsögð mál sem upp hafa verið borin hér á hinu háa Alþingi og koma hinum verst stöddu til góða. Þannig hafa ríkisstjórnarflokkarnir fellt góðar tillögur sem komu fram við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins æ ofan í æ. Kjósendur Flokks fólksins vilja aðra ríkisstjórn, ríkisstjórn sem vinnur í þágu aldraðra og öryrkja og þeirra lægst launuðu, verkafólksins okkar sem þrælar fyrir lágum launum. Brýnt er að vinna að því að afnema skatt af launum þeirra sem eru með undir 300 þús. kr. og binda þannig endi á þá vegferð sem hefur verið tíðkuð og þessi ríkisstjórn heldur áfram við að skattleggja fátækt.