148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[19:00]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Verk og hegðun dómsmálaráðherra er birtingarmynd þeirrar spillingar sem hefur fengið að grassera og eitra út frá sér í allt of langan tíma. Þetta verður að stoppa. Af ræðum þingmanna VG að dæma eru þau sammála því að ráðherra hafi brotið af sér. „Skaðinn er skeður,“ sagði hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Það skiptir máli að ráðherra sem viðurkennir í viðtali að dómarar gætu verið í þakkarskuld við sig sé fjarlægð úr valdastöðu. Það er ótrúlegt að hlusta á réttlætingar hv. þingmanns Vinstri grænna — en það á ekki að vera uppgjör. Það á enginn að sæta ábyrgð. Við eigum bara að setja kíkinn fyrir blinda augað og halda áfram. Og hvað? Svo við getum haldið áfram að vinna með ráðherra sem hylmir yfir og snýr út úr með hroka og valdníðslu?

Nei, takk. Ég styð þessa tillögu.