148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla örstutt að bregðast við sjónarmiði sem kom fram í ræðu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar áðan sem með einhverjum hætti snerist um mismunandi afstöðu þeirra sem greiddu atkvæði gegn vantrauststillögu á dómsmálaráðherra sem hér var til umræðu í gær.

Ég vildi bara vekja athygli á því að þegar vantrauststillaga kemur fram í þinginu geta menn stutt tillöguna á mismunandi forsendum eins og kom fram í umræðunum í þinginu. Sumir gerðu það á þeim forsendum að þeir væru að greiða atkvæði um embættisfærslu þessa dómsmálaráðherra meðan aðrir sögðu einfaldlega, eða á þeim var að skilja, að þeir hefðu ekki mikið út á embættisfærslu dómsmálaráðherra að setja en væru hins vegar að nota tækifærið til að sparka í ríkisstjórnina. Þetta kom fram af hálfu sumra þeirra sem studdu vantrauststillöguna. Með sama hætti greiddu menn atkvæði gegn vantrauststillögunni á ýmsum forsendum eins og kom fram í umræðum og hafa til þess fulla heimild. Ég vildi taka þetta fram í tilefni af þessum ummælum hv. þingmanns.

Ég hjó líka eftir síðari hluta ræðu hans þar sem hann var að fjalla um bréfaskipti sín við forsætisnefnd þingsins. Ég vildi einfaldlega taka það fram að þegar í lögum eða reglum er kveðið á um að forsætisnefnd þingsins úrskurði um einhver atriði sem varða innri starfsemi þingsins þá er það ekkert óvart að það verkefni er falið mönnum sem eru á sama tíma starfandi þingmenn, þ.e. allar þær ákvarðanir sem eru teknar varðandi þingmenn og eru teknar innan þings, varða þingmennina sjálfa eða geta varðað þá með einhverjum hætti. Ég held að menn verði að átta sig á því að almennar hæfisreglur stjórnsýsluréttar eiga ekki við hvað það varðar.