148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherrra.

[17:12]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er rétt að byrja á því að þakka fyrir góða umræðu um þessa skýrslu og skýrsluna sjálfa sem er að mörgu leyti mjög gagnleg inn í umræðuna fram undan.

Til að gera langa sögu stutta held ég að niðurstaða skýrslunnar snúist fyrst og fremst um eitt meginatriðið. Við þurfum að móta stefnu fyrir heilbrigðiskerfið. Það heyrir til ábyrgðar hæstv. heilbrigðisráðherra og þingsins. Ég held að það sé mikilvægt að hafa það í huga að einmitt í ljósi tíðra skipta á heilbrigðisráðherrum á undanförnum árum er mikilvægt að skapa þverpólitískan vettvang um slíka stefnumótun og ég held að það sé raunar heilbrigt til lengri tíma litið að svo sé gert. Við þurfum nefnilega að ræða miklu meira innihald heilbrigðisþjónustunnar en form. Því miður höfum við rifist mest um það hvernig við veitum heilbrigðisþjónustuna en ekki hvaða heilbrigðisþjónustu við veitum. Þar skilur á milli.

Á þetta hefur verið bent í fjölmörgum skýrslum. McKinsey hefur fjallað um þetta mál og talaði um skort á samhæfingu og heildarstefnumörkun. Ríkisendurskoðun gerir hið sama hér og landlæknir hefur ítrekað bent á að vandi heilbrigðiskerfisins verði ekki einungis leystur með auknu fjármagni heldur bættu skipulagi og það sé lykilatriði. Utan um þetta skipulag, utan um þessa stefnumörkun verðum við að halda. Þar hlýtur megininntakið að vera, að við veitum gæðaþjónustu í heilbrigðiskerfinu með sem skilvirkustum hætti til að tryggja landsmönnum fyrirtaksheilbrigðiskerfi, heilbrigðiskerfi í fremstu röð. Hagkvæmni, skilvirkni og gæði verða að vera í fyrirrúmi. Síðan getum við tekist á um það hvernig við getum nýtt okkur mismunandi rekstrarform. Það er alveg ljóst að einkarekin heilbrigðisþjónusta getur fyllilega átt rétt á sér í heilbrigðiskerfinu svo lengi sem þjónustan er veitt og kostuð af hinu opinbera, (Forseti hringir.) en markmiðið á að vera að ríkið sé þá að beita sér sem skynsamur kaupandi heilbrigðisþjónustu (Forseti hringir.) til að tryggja gæði, innihald og skilvirkni kerfisins. Um þetta hljótum við að geta náð samstöðu.