148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

siglingavernd og loftferðir.

263. mál
[17:57]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka fyrri orð mín um að við efnislega meðferð málsins í nefndinni verði þetta sérstaklega skoðað. Það getur alveg komið til þess að dómari meti hver refsiramminn eigi að vera, sérstaklega ef um er að ræða hópa sem standa höllum fæti í samfélaginu. Auk þess er ítrekað að í íslenskum lögum séu bæði málefnalegar ástæður fyrir því hvernig menn taka á brotum og að menn gæti meðalhófs í refsingu miðað við það. Ég vil að lokum ítreka að þetta eru grafalvarleg mál sem varða gríðarlega hagsmuni alls útflutnings og þeirrar ímyndar sem Ísland hefur hvað varðar eftirlit; að menn treysti því hundrað prósent, þegar skip og flugför lenda í öðrum löndum, að á Íslandi sé nákvæmlega það sama gert og í öðrum löndum, að við stöndum við okkar.