148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[12:06]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er áhugavert mál. Það hefur lengi vafist fyrir hagfræðingum og þeir deilt um það hvernig best sé að mæla verðlagsbreytingar. Ég skal fyrstur viðurkenna að þau tæki sem við höfum hér á Íslandi eru gölluð, meingölluð í rauninni. Ég er ekki alveg viss um að þessi tillaga leysi þá galla. Í rauninni dreg ég það mjög í efa.

Ég er almennt sammála því að það er ekki hyggilegt að styðjast við breytingar á verði fasteigna þegar kemur að mælingu á verðbólgu, alveg eins og ég tel að það sé rangt að hafa inni í vísitölunni breytingar á verðlagi sem eru ekki verðbólga, eru t.d. teknar hér, sem fela í sér gjaldskrárhækkanir eða skattahækkanir og síðan margföldunaráhrif. Ég spyr hv. þingmann: Hefði ekki verið skynsamlegra að beina sjónum annars vegar að fasteignaverðinu og hins vegar að athuga hvort við ættum ekki að draga gjaldskrár- og skattahækkanir út úr vísitölunni?