148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[12:45]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Það er svolítið merkilegt til þess að hugsa að við séum að ræða hérna um fjármögnun á íbúðarkaupum og húsbyggingum, sem sagt hvernig venjuleg fjölskylda getur fjármagnað heimili sitt. Að ekki skuli vera hægt að ræða það öðruvísi en að vera á háu þekkingarplani um verðlagsvísitölur, reikniformúlur og slíkt er fyrirkomulag sem ekkert land býður sínu fólki upp á. Þessi umræða gæti ekki farið fram annars staðar en hér, það er algjörlega óhugsandi.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að taka mér í munn orð sem við höfum öll heyrt: Ég á mér draum. Ég á mér þann draum í þessum efnum að okkur takist að draga Ísland inn í hóp vestrænna ríkja, bara í hóp með nágrannaríkjum okkar. Haldið þið ekki að Norðmenn fylgist með frændum sínum á Íslandi, hvað þeir eru klárir í fjármálum, að þeir séu búnir að finna upp verðtryggingu? Haldið þið að þeir myndu ekki taka hana upp ef þeir væru sannfærðir um að þetta væri snjallt? Við erum alltaf að sannfæra okkur sjálf um að við getum ekki losað okkur við þetta af því að hérna séu svo miklar sveiflur í genginu og öllu því. En við hvaða aðstæður búa þeir? Þeir eru með olíukrónu sem sveiflast um tugi prósenta — og eru þeir að taka upp verðtryggingu? Ég held ekki.