148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[16:05]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er akkúrat málið. Það þarf kjark og þor og auðvitað skynsemi líka. Mér datt í hug brot úr kvæði eftir Megas, þar sem segir: Lánskjaravísitalan sekkur út við sjóndeildarhring. Oft þegar ég heyri þessa umræðu um fjármál og allar þær hugsanlegu leiðir sem hægt væri að fara til að laga fjármálin í landinu þá sekk ég út við sjóndeildarhring, ég sóna hreinlega út því að fólk eins og ég og fleiri, við þurfum að fá þetta matreitt á mannamáli. Mann grunar svo oft þegar maður heyrir þessa umræðu fara í gang að menn fari að tala eitthvert svona vísindamál, sem kannski bara 5 eða 10% af þjóðinni skilja, til þess í raun og veru að drepa málinu á dreif af því að sá hinn sami hefur ekki kjark til að taka á því sem þarf að taka á.

Í umræðunni áðan um Arion banka var hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mærður fyrir að hafa verið góður forsætisráðherra og tekið vel á málum í hans tíð. Þurfum við ekki einmitt á svona stjórnmálamönnum að halda í forystu í landinu?