148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

249. mál
[16:30]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Ég skil rökin núna fyrir 73 árum. Ég er ekki alveg viss um að ég ætli að skrifa upp á þau að óbreyttu. Ég held að 75 ár sé miklu betri hugmynd, en látum það liggja milli hluta. Ég held að það kunni nú að flækjast eitthvað fyrir stéttarfélögum opinberra starfsmanna, ég hygg að það þurfi að huga að því. Þetta er auðvitað hluti af miklu stærra máli. Við vorum að glíma við það að hækka eftirlaunaaldur og færa hann í skrefum upp í 70 ár og jafnframt væri sá sveigjanleiki að geta hafið lífeyristöku 65 ára og frestað til áttræðs. Það náðist því miður ekki samstaða um það. Ég var sjálfur ósáttur við þá tillögu að þetta yrði gert á 24 árum. Ég tel að það þurfi að gera þetta miklu hraðar og tel skynsamlegt að miða við tólf ár í þeim efnum, tólf ár er ágætur tími fyrir okkur eða mig sem er á þessum aldri, það er nú það sem ég á eftir. Nema að þetta frumvarp nái fram að ganga og ég gerist opinber starfsmaður fram til 75 ára, það verði þannig.

Hugmyndin að baki þessu frumvarpi er góð. Ég styð það sem er reynt að ná fram. Ég skil rökin að baki 73 árum. Ég óttast hins vegar að ef menn eru ekki tilbúnir að taka skrefið upp í 75 ár þá verði þetta um næstu áratugi 73 ár. Þegar við horfum til þeirrar þróunar sem mun verða áfram, (Forseti hringir.) að lífaldur og starfsgeta fólks verður alltaf meiri (Forseti hringir.) þrátt fyrir hærri aldur, þá held ég að það sé skynsamlegt að gera þetta eins og ég legg til.