148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

frestun á framlagningu fjármálaáætlunar.

[16:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Við störfum hér undir ríkisstjórn sem hefur gefið út stjórnarsáttmála um ríkisstjórnarsamstarf og aukna virðingu Alþingis. Ofan í það fáum við bréf frá kansellíinu þar sem Alþingi er tilkynnt að fjármálaráðherra hyggist þann 1. apríl nk. brjóta lög og þar er kvartað undan því að páskadagur skuli vera þann 1. apríl. Ég verð eiginlega að spyrja forseta hvort ekki sé hægt að biðja fjármálaráðherra og kansellíið sem skrifaði okkur hérna í morgun um að vinna eins og tvo daga í yfirvinnu og gera þessa áætlun klára 31. mars.

Síðan ætlaði ég að þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé kærlega fyrir heilræði sem hann setti fram hér áðan. Ef það á fyrir mér að liggja einhvern tímann á næstunni eða í lengri tíma að ég verði t.d. tekinn fyrir of hraðan akstur mun ég hafa það uppi við þann sem hefur afskipti af mér að ég sé að máta mig inn í umferðarlögin vegna þess að ég get ekki ímyndað mér það hvernig menn eiga að máta sig inn í þessi lög. (Forseti hringir.) Ætlar fjármálaráðherra að gera það? Með hvað hætti?