148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja ræðu mína á að fagna fréttum af landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson sagði okkur frá áðan að hefði tekið upp mörg af baráttumálum Flokks fólksins, eins og að afnema krónu á móti krónu skerðingar og koma til móts við öryrkja. Ég bíð spenntur eftir efndunum.

Ég vil nýta þetta tækifæri til að fjalla um málefni sem hefur alls ekki fengið þá athygli sem ég tel það eiga skilið. Hér á ég við langtímaatvinnuleysi. Í tölum frá Vinnumálastofnun í skýrslu um stöðu og horfur á vinnumarkaði á árunum 2016 til 2018 kom í ljós að mikill munur er á stöðu atvinnulausra eftir aldri. Þannig er um þriðjungur atvinnulauss fólks á aldrinum 50 ára og eldri langtímaatvinnulaus en einungis áttundi hluti fólks í yngsta hópnum. Hvaða sögu má lesa úr þessu um vinnumarkaðinn? Er það virkilega svo að hér ríki eitthvað sem mætti nefna aldursmisrétti á íslenskum vinnumarkaði? Er það virkilega svo árið 2018 að Íslendingar séu haldnir aldursfordómum á vinnumarkaði? Fólk sem missir vinnuna um eða eftir fimmtugt virðist þannig eiga mjög erfitt með að fá vinnu að nýju. Er þetta fólk virkilega úr leik hvað atvinnuþátttöku varðar?

Margt af því fólki er vel menntað og það sem meira er, það hefur unnið sér inn dýrmæta reynslu sem ætti, ef allt væri eðlilegt, að vera afskaplega eftirsóknarverð. En svo virðist ekki vera.

Annað sem mætti nefna er að oft er þetta ábyggilegasta starfsfólk hvers vinnustaðar ef horft er til mætingar og stundvísi. Það ætti því að vera eftirsótt. Er vinnumarkaðurinn að hafna fólki sem komið er yfir miðjan aldur?

Þetta hefur leitt til þess að nú um stundir ræða menn af kappi nauðsyn þess að færa eftirlaunaaldur ofar og einnig að gera eigi fólki, eins og til að mynda ríkisstarfsmönnum, kleift að vinna lengur en til sjötugs. Hér er eitthvað sem fer ekki saman. Við verðum að taka umræðuna um þetta þarfa málefni sem ég veit að brennur á mjög mörgum og fullyrða má (Forseti hringir.) að fjölmörg málefni hafa verið tekin til ítarlegrar umræðu í samfélaginu á undanförnum misserum sem eru léttvægari en einmitt þetta. Er þetta ekki þróun sem þarf að sporna við?