148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Stjórnarsáttmálinn undirstrikaði sérstaklega eflingu Alþingis og undir þessum lið, um störf þingsins, langar mig því til að fjalla um störfin á landsfundi Sjálfstæðisflokksins — nei, um störf þingsins, [Hlátur í þingsal.] um virðingu þings og líka ríkisstjórnar. Flestir eru sammála um að Alþingi og framkvæmdarvaldið þurfi að endurheimta virðingu þjóðarinnar, en það hefur ekki gengið vel.

Eitt fyrsta verk meiri hlutans á þingi var að úthluta stjórnmálaflokkum auknum fjármunum. Það var reyndar stórt kosningamál og eindreginn vilji þjóðarinnar að fjármunir færu til stjórnmálaflokka. Ekki til gamla fólksins okkar. Verið er að hugsa um velferð stjórnmálaflokka. Þingið hefur ekki séð ástæðu til að hnekkja úrskurði kjararáðs um launahækkun þingmanna og ráðherra. Þingið sá ekki ástæðu til að hemja sjálftöku kjörinna fulltrúa í gegnum starfskostnaðargreiðslur fyrr en málið komst í fjölmiðla. Það má líka taka fram að það tók meira en ár að pína þær upplýsingar fram. Það er ekki til þess fallið að auka virðingu þingsins. Dómsmálaráðherra var dæmdur brotlegur við lög. Dómsmálaráðherra rengir Hæstarétt, dregur dóm hans í efa. Fjármálaráðherra áformar lögbrot núna um mánaðamótin. Hann tilkynnti þinginu að fjármálaáætlun myndi ekki liggja fyrir á lögboðnum tíma. Þessi lögbrot fara ekki á neina sakaskrá.

Frá árinu 2012 hefur þingið kosið að hunsa vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá og nú skal málið sett í nefnd. Enn og aftur. Alþingi er ekki treystandi til og á sem minnst að vasast í gerð stjórnarskrár. Stjórnarskráin á að vernda almenning gegn ofríki yfirvalda. Ég get talið upp lengi, það gengur ekki að sitja hér í sparifötunum og segja: Kerfið er bara svona. Vandinn er ekki að almenningur beri enga virðingu fyrir Alþingi, heldur að við berum ekki virðingu fyrir þjóðinni. Breytum því.