148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Í því dæmalausa góðæri sem við lifum við væri það til algerrar vansæmdar ef við notuðum ekki tækifærið og réttum hlut þeirra sem höllum fæti standa í íslensku samfélagi. Við höfum beitt okkur fyrir mörgum málum. Við viljum fella niður frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra. Við viljum leysa öryrkja úr manngerðri fátæktargildru sem þeir búa við hér. Við viljum endurreisa bótakerfin, vaxtabætur og barnabætur. Við viljum að tekjur sem ekki duga fyrir framfærslu, á þann mælikvarða sem birtur er af hálfu Stjórnarráðsins á vefsíðu velferðarráðuneytisins um framfærslu, verði undanþegnar tekjuskatti.

Þær tölur sem þar liggja fyrir eru alveg skýrar. Skattleysismörkin losa rétt liðlega 150 þús. kr. en á vefsíðu velferðarráðuneytisins kemur fram að framfærsluviðmið einstaklings á mánuði nemur tæplega 223 þús. kr. Hér er á mæltu máli verið að skattleggja tekjur sem ekki duga fyrir nauðþurftum samkvæmt því opinbera mati sem fyrir liggur í þessu efni. Það á ekki að vera þannig að fólk sem ekki hefur tekjur sem duga fyrir nauðþurftum þurfi að sjá á bak hluta þeirra tekna í greipar skattsins.

Herra forseti. Í ljósi fréttaflutnings af landsfundi Sjálfstæðisflokksins leyfi ég mér að vænta víðtæks stuðnings við þessi mál og ekki síst vænti ég góðs stuðnings Sjálfstæðismanna.