148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[15:19]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði í andsvörum við hæstv. ráðherra, það er vissulega fagnaðarefni að verið sé að taka á þessu máli sem snýr fyrst og fremst að heimild hjóna til að geta átt hvort sitt lögheimilið ef þörf krefur, enda í sjálfu sér engin ástæða fyrir löggjafann að reisa skorður við því sérstaklega. Við þekkjum mætavel að samfélagið hefur breyst verulega á undanförnum árum og áratugum. Fólki á að vera frjálst að hátta sinni sambúð, hjónaböndum eða öðru eins og því sjálfu þykir henta.

En um leið ítreka ég það sem ég nefndi í andsvari við hæstv. ráðherra. Það eru mér verulega mikil vonbrigði að ekki sé um leið tekið á því máli, sem kannski hvað hæst hefur farið í umræðunni um skráningu lögheimilis, sem er möguleikinn á skiptu lögheimili barna.

Þegar við tölum um breytt samfélag er ráðandi fyrirkomulag við skilnað eða samvistarslit foreldra sameiginleg forsjá. En við vitum hins vegar um leið að það er verulegur aðstöðumunur milli foreldra, jafnvel þótt samkomulag sé gott, þegar kemur að forræði eða forsjá með börnum eftir því hvort lögheimili er skráð hjá foreldri eða ekki. Ýmsum þykir það heldur niðurlægjandi að þurfa jafnvel að sækja um heimild lögheimilisforeldris fyrir aðgangi að ýmsum upplýsingum og ýmsu sem þegar er áskilið í lögum að heyri til lögheimilisforeldris um ákvarðanatöku, svo sem ákvörðun vegna heilbrigðisþjónustu, skráningu í leikskóla eða grunnskóla, skráningu í frístundir og annað þess háttar sem löggjafinn gerir í dag ráð fyrir að lögheimilisforeldri geti eitt tekið ákvörðun um þrátt fyrir sameiginlegt forræði.

Það hefur lengi verið kallað eftir breytingu á þessu. Löggjafinn þráast einhverra hluta vegna við. Ég velti stundum fyrir mér í þessu samhengi, og hv. þm. Pawel Bartoszek kom ágætlega inn á, fyrir hvern lögin séu skrifuð. Eru þau skrifuð fyrir kerfið? Fyrir fólkið sem á að starfa eftir þeim? Hér finnst mér vera dæmigert að verið er að skrifa lög fyrir kerfið. Þetta er eitthvað sem er þægilegt fyrir þjóðskrá, þægilegt fyrir kerfið að starfrækja. Umræðan um skipt lögheimili í greinargerð þessa lagafrumvarps er t.d. slegin af af því að þetta sé flókið fyrir sveitarfélög að vinna eftir. Menn eru ekkert að velta fyrir sér hversu miklir hagsmunir foreldra, fólksins, séu og hvort ekki megi leggja á sig einhverja aukalega vinnu til þess að búa löggjöfina þannig úr garði að hún geti gengið fyrir bæði sveitarfélög og, fyrst og fremst, þá sem eiga að nýta sér löggjöfina, þ.e. foreldrana eða fólk sem er að skrá lögheimili sitt.

Í þessu samhengi er líka ágætt að hafa í huga að það er vissulega rétt sem hæstv. ráðherra nefndi, tilurð þessa frumvarps er á grundvelli þingsályktunartillögu sem samþykkt var hér á Alþingi haustið 2016. En það má líka í því samhengi hafa í huga að Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu 2014 um mikilvægi þess að taka á skiptu lögheimili foreldra eða barna þar sem foreldrar fara með sameiginlega forsjá. Í kjölfarið var skipuð nefnd af innanríkisráðherra sem skilaði niðurstöðu að ég held 2015. Sú nefnd lagði til eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Til að jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna og ákveða að ala þau upp saman á tveimur heimilum leggur starfshópurinn til að gerðar verði breytingar á barnalögum. Þar komi inn nýtt ákvæði sem heimili að skipta búsetu barns á grundvelli staðfests samkomulags foreldra, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Skipt búseta barns mun fela í sér ýmis réttaráhrif, þar á meðal varðandi ákvarðanatöku um málefni barns svo og framfærslu þess.“

Ýmsar tillögur fleiri eru þarna nefndar til þess að kveða fastar á um hvernig farið skuli með þetta nákvæmlega. Það er ágætt að hafa í huga að hér er um að ræða mál sem var á forræði sameinaðs innanríkisráðuneytis lengst af, frá því að þessi þingsályktunartillaga var samþykkt 2014, skýrslunni skilað 2015 og sú þingsályktunartillaga sem vísað er til í þessu frumvarpi samþykkt af hálfu þingsins 2016. Það er ekki fyrr en fyrir rétt um ári síðan sem ráðuneytinu var skipt upp. Maður spyr sig: Er þá samstarfið ekki betra innan fyrrum sameinaðs ráðuneytis en svo að ekki tækist að sameina vinnuna í tengslum við þessi tvö mikilvægu mál og skrifa eitt lagafrumvarp þannig að á þessu væri tekið í eitt skipti fyrir öll? Það hefur talsvert lengur verið beðið eftir niðurstöðu um skipt lögheimili barna en skipt lögheimili hjóna og held ég talsvert ríkari hagsmunir í húfi þar, með fullri virðingu fyrir þeim hagsmunum sem hjón geta átt af að geta átt hvort sitt lögheimilið, sem ég tel afar brýnt og í anda jafnréttishugsunar að sá möguleiki eigi vissulega að vera fyrir hendi.

Þetta er nokkuð sem kallað hefur verið eftir lengi, nokkuð sem myndi bæta verulega úr stöðu þeirra foreldra sem ekki eru með lögheimilið. Við vitum að það eru kannski fyrst og fremst karlar þar sem langalgengasta fyrirkomulag sameiginlegrar forsjár er að lögheimili sé hjá móður. Það hefur verið kallað eftir því mjög lengi af hálfu feðra að hlutur þeirra sé réttur í þessu, að það sé raunverulegt jafnvægi milli foreldra þegar kemur að forsjá og uppeldi barna hvað þetta varðar líka.

Ég vona svo sannarlega að hæstv. dómsmálaráðherra sé með þetta mál ofarlega í sinni forgangsröð en ítreka enn og aftur vonbrigði mín yfir að ekki skuli hafa verið tekið á þessu samhliða. Ég hefði talið tiltölulega einfalt að finna á því lausn þótt vissulega, eins og hæstv. ráðherra benti á, væri þá verið að fara inn í barnalög sem heyra vissulega undir dómsmálaráðuneytið. En ég fæ ekki séð annað en að þegar kemur að hæstv. dómsmálaráðherra að leggja fram frumvarp um skipt lögheimili þurfi hæstv. dómsmálaráðherra að fara inn í frumvarp um lögheimili eða ný lög um það. Væntanlega verður ekki tekið á þeim vanda öðruvísi en einmitt með breytingum á því frumvarpi sem hér er um að ræða.

Þess vegna væri það mikið fagnaðarefni að sjá að úr þessu yrði jafnvel leyst í nefnd og málið tekið þar til úrvinnslu og klárað til enda, að við myndum leiða þá vinnu til lykta sem snýr að skiptu lögheimili barna, foreldrum þeirra og börnunum sjálfum til hagsbóta. Ég vona alla vega svo sannarlega að nefndin taki það til skoðunar hvort ekki sé hægt að ljúka þessu máli. Ég held að við séum búin að bíða nægilega lengi eftir aðgerðum frá framkvæmdarvaldinu hvað þetta varðar.