148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

breyting á ýmsum lögum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála.

389. mál
[16:33]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki afleit hugmynd sem hv. þingmaður lét sér detta í hug hér í pontu. Auðvitað er það þannig að í dag þarf Byggðastofnun að yfirfara fjárlög með byggðagleraugum en hefur kannski ekki komist enn svona almennilega í framkvæmd vegna þess að við höfum verið að kjósa og leggja fram fjárlög á óhefðbundinn hátt upp á síðkastið frá því að sú tilhögun var tekin upp í lögum. Byggðaáætlun á auðvitað að taka tillit til samþættingar allra áætlana og hugmyndafræðin með því að samræma verklagið við allar þessar ólíku áætlanir er auðvitað sú að þær tali saman og styðji hver aðra.

Varðandi síðan spurninguna um fjarskiptasjóð svaraði ég því kannski heldur ekki nægilega skýrt að sjóðurinn er í tilteknu verkefni í miðri á og ég tel að það væri óráðlegt að fara að býtta út fólki eða skipuritum við það, hvað svo sem síðar verður þegar við erum búin að tryggja grunnnetið í fjarskiptum til allra, hvort sjóðurinn, fjarskiptasjóður, fái þá allt annars konar verksvið og umfang og þá þurfum við bara að endurskoða það. En við núverandi aðstæður held ég að það væri óráðlegt.