148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[17:23]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir ræðuna. Það er ekki á hverjum degi sem við fáum mann með slíka þekkingu á fjarskiptamálum landsins í ræðupúltið en ég gat ekki skorast undan því að ræða það frekar við hann, enda ekki slæmt að vera brautryðjandi fyrir Merkel.

Mig langar að þakka honum fyrir að koma inn á reikimálin. Ég hef velt þeim mikið fyrir mér. Það er misjafnt hvað maður er í góðu fjarskiptasambandi. Maður veit jafnvel að sessunautur manns í bílnum er í góðu sambandi en maður sjálfur ekki. Ég hef spurt mikið um þetta þegar einhvers konar fjarskiptamál hafa komið til umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd en verð að segja eins og er að mér finnst við aldrei hafa fengið nein almennileg svör við spurningunum þannig að ég þakka fyrir að þingmaðurinn hafi upplýst okkur um að kannski væri smuga í þessum málum og hvernig við getum gert þetta, að það sé þessi munur á opinberu sendunum og fyrirtækjunum. Þá eru það væntanlega einhvers konar samkeppnissjónarmið sem hafa gert þetta. Ef ég skil málið rétt voru þau samkeppnissjónarmið hugsuð sem hvati til að byggja upp kerfin, þróa þau áfram.

Þannig er spurningin: Er þeim markmiðum kannski nú þegar náð og er þess vegna óhætt að slaka á samkeppnissjónarmiðunum þar sem fjarskiptakerfið er komið víðar, komnir miklu fleiri notendur meðal erlendra ferðamanna og þetta eru kannski dreifðari byggðir sem eftir eru og ferðamannastaðir og annað slíkt sem þarf að laga? Svo er þetta náttúrlega öryggisatriði. Það er kannski hægt að nálgast málið einhvern veginn frá því sjónarhorni líka.