148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Á mánudaginn var komum við saman, átta þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi, að frumkvæði umboðsmanns barna, UNICEF og Barnaheilla. Tilefnið var að gerast talsmenn barna á Alþingi. Við fengum fræðslu frá börnunum um mikilvægi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mikilvægi þess að við á hinu háa Alþingi tileinkuðum okkur barnvæn sjónarmið og að muna að hafa hagsmuni barna ávallt að leiðarljósi. Þau eru bæði framtíðin og nútíðin. Þau voru líka svo almennileg að afhenda okkur knús, faðmlag, sem ég ætla að klæða mig í.

Þetta er í þriðja sinn sem þingmenn eru tilnefndir sem talsmenn barna og þetta í annað sinn sem ég undirrita þessa yfirlýsingu. Ég mun hér eftir sem hingað til leggja mig fram um að hafa sjónarmið og hagsmuni barna að leiðarljósi í störfum mínum.

Mér þykir mikill heiður að fá þetta hlutverk og það er yndislegt að fylgjast með því öfluga starfi sem unnið er á vettvangi þessara þriggja aðila, þ.e. umboðsmanns barna, UNICEF og Barnaheilla. Sérstaklega er ánægjulegt að fylgjast með öflugum ungmennaráðum þessara aðila og sjá hvað við eigum ofboðslega skýra og bjarta framtíð hér á landi. Þessir krakkar vita alveg hvað þau vilja, þau vita hver réttur þeirra er og þau eru tilbúin að verja þann rétt sinn.

Talsmenn barna á þingi eru, auk þeirrar sem hér stendur, Inga Sæland, Líneik Anna Sævarsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Jón Þór Ólafsson, Oddný G. Harðardóttir, Þorsteinn Víglundsson og Andrés Ingi Jónsson. Eins eru varamenn fyrir okkur öll. Hlutverk okkar er ekki síst að fræða og hvetja okkur öll, 63 hv. þingmenn, til að hafa hagsmuni barna ávallt að leiðarljósi. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)