148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni nýliðinn landsfund Sjálfstæðismanna, sem ég óska þeim til hamingju með, svo og öllum öðrum sem haldið hafa sína landsfundi. En þessi þykir mér hafa borið af á einn máta, sérstaklega vegna þess að þar eru Sjálfstæðismenn klárlega farnir að halla sér æ meira að þeim hugsjónum og þeirri stefnu sem Flokkur fólksins er að berjast fyrir, þ.e. í áttina að því að afnema skerðingar og útrýma fátækt. Það var afskaplega ánægjulegt hér í gær að hlusta á hv. þm. Ásmund Friðriksson. Mig langar að vitna í hans orð, með leyfi forseta. Þar segir Ásmundur:

„Ég var sérstaklega ánægður með það að í lok þingsins var samþykkt að draga úr skerðingum á örorku- og ellilífeyri. Það er eitt af okkar stóru málum sem við viljum vinna að, að tryggja öllum tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði …“

— En taktu nú eftir, virðulegi forseti:

„… en króna á móti krónu skerðing viðgengst enn hjá þeim sem eru á örorkulífeyri. Þá skerðingu ber að afnema nú þegar, það var samþykkt. Ég fagna því og treysti því að við í þessu húsi stöndum saman um þá breytingu.“

Segir hv. þm. Ásmundur Friðriksson eftir þennan frábæra landsfund Sjálfstæðismanna um síðustu helgi.

Ég segi: Það er svo sannarlega ánægjulegt þar sem við í Flokki fólksins, sem eigum t.d. frumvarp í virðulegri velferðarnefnd sem kveður á um afnám skerðingar á launatekjur eldri borgara, eitt af tveimur frumvörpum sem við þegar höfum lagt fram. Það er ákaflega ánægjulegt að vita að nú strax er hægt að fá efndirnar og sjá viljann fyrir þeim frábæru fyrirheitum sem nýliðinn landsfundur Sjálfstæðismanna kvað á um.

Ég segi bara: Bjartsýni og bros bjargar deginum. Og: Góðir hlutir gerast hægt. Dropinn holar sannarlega steininn. Við erum í góðum höndum.