148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[16:05]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eitt er fjármálastefna og annað er fjármálaáætlun. Við hljótum náttúrlega að bíða hér full eftirvæntingar, nánast í óbærilegri spennu, eftir fjármálaáætluninni sem okkur er tjáð að við fáum að sjá á fyrstu dögum nýs mánaðar, aprílmánaðar, og munum auðvitað þakksamlega þiggja kynningu á henni, kannski einum degi áður en hún verður gerð opinber. Ég hlakka mjög til þess.

Það er þannig að í þessum efnum standa menn náttúrlega frammi fyrir miklum áskorunum varðandi innviðina. Annars vegar hefur uppbygging þeirra og viðhald setið á hakanum undanfarin ár. Það á sér að sumu leyti eðlilegar skýringar ef við lítum á hrunið og annað af því tagi, en við erum nú komin alllangt frá því. Síðan er auðvitað hitt að við blasa, ekki bara viðhaldsverkefni, heldur mjög stór verkefni á þessu sviði og liggja fyrir mjög góðar og glöggar skýrslur um það, til að mynda hin merka innviðaskýrsla Samtaka iðnaðarins sem markar ákveðin tímamót í skýrslugerð um þessi efni.

Það er sömuleiðis ástæða til að vekja athygli á því sem fjallað er um í áliti fjármálaráðs þar sem tengd eru saman hugtökin annars vegar framleiðni og hins vegar innviðir og hvernig uppbygging innviða getur stuðlað að aukinni framleiðni og þar með aukið hagsæld (Forseti hringir.) og bætt lífskjör í landinu.