148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég held að það sé ekkert nauðsynlegt. Við öðlumst þessi réttindi og í rauninni höfum við þessi réttindi til að láta í okkur heyra og að tillit sé tekið til okkar smám saman eftir aldri og þroska. Það er ekkert óeðlilegt að við fáum hinn og þennan rétt skilyrtan áður en við verðum sjálfráða þar sem skilgreiningin barn er upp að 18 ára aldri miðað við barnasáttmálann. Eigum við þá að breyta þeirri skilgreiningu líka miðað við sjálfræðið? Hættir barn að vera barn 16 ára? Hvað með 15 ára þegar barn er sakhæft, verðum við þá ekki að breyta því í 16 líka? Hefur það einhverjar hliðarverkanir út frá réttarfari o.s.frv.?

Ég sé í rauninni ekkert að því að réttindin ávinnist ár eftir ár, statt og stöðugt, eftir því sem við metum á faglegan hátt t.d. með tengsl til aldurs og þroska almennt séð og öðlumst réttindi eftir því óháð sjálfræðisaldrinum.