148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:38]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Þetta var kórrétt ábending frá hv. þingmanni og ég vona að enginn hafi skilið mig þannig, enda væru það ekki bara konur sem myndu missa kosningarrétt, það væru langflestir karlmenn líka. Ég held að við hv. þingmaður værum a.m.k. í þeim hópi, ég veit ekki um aðra í salnum.

Athygli mína vakti ritgerð í lögfræði við Háskólann á Akureyri eftir Margréti Lilju Gunnarsdóttur en hún var skrifuð undir leiðsögn Ágústs Þórs Árnasonar. Þetta er ritgerð sem lögð var fram árið 2011 og vakti mig til umhugsunar. Ég staldra aðeins við. Þar segir að margt virðist benda til þess að þegar sjálfræðisaldurinn var hækkaður upp í 18 ár hafi hagur barnsins ekki alltaf verið hafður í fyrirrúmi. Það (Forseti hringir.) getur meira að segja hafa valdið mjög mörgum á aldursbilinu 16–18 ára verulegum óþægindum. Þetta er auðvitað eitt af því sem við verðum að hugsa um. Ég ætla (Forseti hringir.) nú að lesa þessa kandídatsritgerð af mikilli ánægju. Afsakaðu, frú forseti, ég fór fram yfir tímann.