148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fyrirspurnir þingmanna.

[11:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Svo virðist sem embættismannakerfið á Íslandi hafi risið upp á afturlappirnar vegna þess að þeim ofbýður að þingmenn skuli nýta sinn stjórnarskrárbundna rétt til að beina fyrirspurnum til framkvæmdarvaldsins. Sá sem hér stendur á í kringum 20 fyrirspurnum ósvarað af ýmsum ráðuneytum. Nú skilst mér samkvæmt Mogganum í morgun að þetta sé allt saman vegna sýniþarfar. Ég get fullyrt við þingheim að sýniþörf undirritaðs kemur fram allt öðruvísi og á öðrum stað en (Gripið fram í: Hvar?) hér á Alþingi með því að … (Gripið fram í.) … og beina fyrirspurnum til ráðuneyta um mál sem varða stjórnsýslu okkar. Ég gleðst yfir því að fjármálaráðherra gleðjist yfir þessu því að ég á hann sem bandamann í því að opna stjórnsýsluna upp á gátt, sem ég hef beðið um í ítrekuðum fyrirspurnum til hans og annarra. Ég fyllist bjartsýni við að sjá hvað hann tekur þessu glaðlega. En mér ofbýður satt að segja að þurfa að sitja undir svona kjaftæði.