148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fyrirspurnir þingmanna.

[11:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það var nú byrjað að kvarta snemma þegar ég hóf þingmennsku mína árið 2013 yfir því að þingmenn spyrðu allt of mikið. Kvartanirnar hafa aukist enda hefur tilhneiging Alþingis til að beita sínum tækjum til aðhalds og eftirlits með framkvæmdarvaldinu kannski aukist og er það vel.

Ég vil gjarnan skilja vandamál annarra, sér í lagi pólitískra andstæðinga til að skilja betur hvernig hægt sé að ná einhverri málamiðlun. Ég get skilið það vandamál að það sé of mikið að gera. Sem þingmaður skil ég það mætavel að oft er ekki gert ráð fyrir að maður hafi hreinlega tíma til verkanna. En þá kvartar maður yfir því að maður hafi ekki nægan tíma, þá kvartar maður yfir því að maður hafi ekki nægt starfsfólk til dæmis. En maður kvartar ekki yfir því að Alþingi sinni eftirlitshlutverki sínu of vel til að ríkisstjórnin ráði við það. Það er fráleitur málflutningur. Hann var fráleitur 2013 og hann er fráleitur í dag.