148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fyrirspurnir þingmanna.

[11:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Áðan var nefnt að í Morgunblaðinu kæmi fram, og við þekkjum öll pólitísku tenginguna yfir á Morgunblaðið, að þingmenn noti fyrirspurnir til að gera sig sýnilega. Ja, fyrirspurnir eru beinlínis hannaðar til að gera hluti sýnilega. Það er þess vegna sem þetta verkfæri er til staðar, til þess að hægt sé að kalla fram upplýsingar. Það er heili punkturinn, að vekja umræður, að vekja athygli á hlutunum, hvort sem það er þingmaðurinn sem spyr — ja, margur heldur mig sig.

Það er undirliggjandi í þessum málflutningi að hér sé of mikið spurt núna. Það er þá byggt á þeim misskilningi, á þeirri ranghugmynd, að þingmenn hafi yfir höfuð almennt verið að spyrja nóg áður. Gert er ráð fyrir að í þá gömlu góðu daga hafi fyrirspurnir verið eitthvert leikandi, ljómandi, flæðandi fyrirbæri sem þjónaði tilgangi sínum og það hafi dugað. En stjórnsýslan okkar er ekki nógu opin. Það er ekki nógu mikið af gögnum gerð opinber. Það er ekki nógu auðveldlega svarað, ekki nógu auðvelt að fá upplýsingar fram hjá ríkinu. Og þessi (Forseti hringir.) nýting á þessu tæki endurspeglar þá staðreynd. Þá eigum við ekki að bregðast við með því að draga úr aðhaldinu, við eigum að bregðast við með því að auka burði ríkisins til þess að sinna þeirri skyldu sinni að svara því sem þingmönnum sýnist að spyrja um.