148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

tollgæslumál.

[12:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir þessa umræðu um tollgæslumál og embætti tollstjóra. Hann þekkir þennan málaflokk vel, það veit ég, og hefur látið hann sig varða.

Þegar kemur að vernd borgara, stjórnkerfis og innviða þá hvílir öryggið ekki síst á herðum öflugrar löggæslu og tollgæslu. Við getum sagt að landamæragæsla sé okkar fyrstu varnir.

Það hefur komið vel fram í umræðunni að það eru aukin umsvif í flutningum á fólki og vöru og verkefnin eru margslungnari í seinni tíð en áður. Það þarf auðvitað stöðugt að meta hver mannaflsþörfin er. Viðfangsefnin þurfa að taka mið af því. Það þarf endurnýjun tækja og samvinnu við löggæslu til þess að mæta aukinni þörf fyrir viðbúnað á landamærum og efla samvinnu við lögreglu eins og hefur komið fram.

Það hefur ýmislegt verið gert. Hæstv. fjármálaráðherra fór ágætlega yfir það. Það hefur verið aukið í í mannskap. Ég leyfði mér að rýna eilítið í tölur og stofnunin tók á sig eins og margar aðrar stofnanir niðurskurð í kjölfarið á hruninu, en það hefur verið verulega bætt við fjármunum í seinni tíð. Það er mjög gott jafnvægi. Þetta er vel rekið embætti. Það kemur augljóslega fram í tölum. En það þarf auðvitað á hverjum tíma að skilgreina viðfangsefnin og þörfina. Það má nefna hér að í nýtt tollkerfi var settur milljarður sem dreifðist jafnt á síðastliðin fimm ár og ýmislegt þar verið gert.