148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

móttaka skemmtiferðaskipa.

[12:33]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vildi byrja á að þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir að hefja þessa umræðu og ágætt svar frá hæstv. ferðamálaráðherra. Já, þetta er snúið. Ég er nú ekki mikið fyrir boð og bönn og ég held að það sé mjög erfitt að takmarka eða jafnvel stjórna komum skemmtiferðaskipa og það er erfitt að skipuleggja inn í óvissuna.

Suðurströndin er auðvitað meira og minna hafnlaus, þannig að þessi skip fara mestmegnis um vestanvert landið og svo norður fyrir. Ég hef líka heyrt frá ferðamálafrömuðum að þetta eru ekki vinsælustu ferðamennirnir. Þeir eru öðruvísi en þeir sem koma með flugi, þeir fara oft bara yfir í skip aftur til þess að borða og versla lítið, þannig að þeir eru kannski ekki beint vinsælastir. Þetta er mjög snúið og ég fagna því að það sé verið að vinna í þessum málum.

Mig langar að víkja sérstaklega að loftmenguninni því að hv. þm. Smári McCarthy og Björn Leví Gunnarsson spurðu einmitt umhverfisráðherra sérstaklega um 6. viðauka MARPOL-samningsins. Ég hef áhyggjur af bæði svartolíunotkun og kannski vangetu stjórnvalda til að byggja upp flutnings- og dreifikerfi raforku til þess að gera okkur það kleift að krefjast þess að skemmtiferðaskip í landi noti þessa hreinu orku. Síðan kemur það upp að um leið og við erum búin að fullgilda þennan viðauka og komin með stefnumótun, áætlun og skipulag þá vantar einmitt fjármögnun. Það er ákveðið að gera eitthvað en fjármunir fylgja ekki og þess vegna er það ekki gert. Ég verð að lýsa yfir áhyggjum mínum af því, bæði varðandi raforkukerfið og eftirliti með því að 6. viðauka MARPOL-samningsins verði fylgt (Forseti hringir.) því að það er augljóst að það vantar meiri fjármuni til þess að hægt verði að reka Landhelgisgæsluna með sóma. (Forseti hringir.) Ég geri ráð fyrir því að hún verði einn aðaleftirlitsaðilinn. Ég hvet sveitarfélög, sjálfstæð sveitarfélög og hæstv. ferðamálaráðherra til dáða.

(Forseti (JÞÓ): Forseti áréttar að þingmenn virði ræðutíma. Þessi bjölluhljómur var í boði þingmanns Pírata.)