148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

móttaka skemmtiferðaskipa.

[12:48]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og þakka málshefjanda Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir, og ráðherra málaflokksins fyrir að vera viðstaddur.

Ég hjó eftir því að ráðherra talaði um að þessi umræða, stefnumótun og annað slíkt, í kringum skemmtiferðaskip hafi mætt afgangi í landinu. Það er einmitt það sem við þurfum að taka upp og láta fara í forgang, eða kannski ekki forgang, heldur frekar meðfram öðru.

Eins og síðasti ræðumaður kom inn á er ég hjartanlega sammála honum í því að umræðan er oft á þröngu sviði þegar við erum að tala um ferðamannaþjónustu almennt, þá eru umhverfismálin oft efst á blaði en ekki mikið talað um efnahagsleg eða samfélagsleg málefni, en þetta ætti allt að vera jafnfætis í umræðunni.

Þetta er mikil búbót fyrir landið, byggðir úti á landi, að fá þessi skip til sín. Eins og hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir kom inn á var þetta í stefnu Miðflokksins í kosningunum, að efla landsbyggðina. Það eru þrjár hafnir sem eru stærstar, þ.e. Reykjavík, Ísafjörður og Akureyri og taka þær flest og stærstu skipin. Minni hafnir hafa verið að taka minni skipin. Þaðan sem ég kem, úr Breiðafirði, þ.e. Stykkishólmur/Grundarfjörður — í Stykkishólmi verður tekið á móti 24 skipum í sumar og um 70 aðilar hafa beðið um að koma, en hafnaraðstaðan býður ekki upp á það. Þar þarf að bæta í. Eins er sama staðan í Grundarfirði. Þeir bíða eftir lengri (Forseti hringir.) kanti til að geta tekið á móti tveimur skipum í einu.

Tvær mínútur eru mjög fljótar að líða, þannig að ég ætla að þakka fyrir mig.