148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

móttaka skemmtiferðaskipa.

[12:50]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda og ráðherra fyrir þessa umræðu. Við ræðum hér mikilvægan þátt í ferðaþjónustunni sem leiðir af sér allmörg afleidd störf og fjárhagslegan ávinning þótt hann sé umdeildur. Þetta er sérkennilegur þáttur ferðaþjónustunnar vegna þess að fjöldi ferðamanna kemur í einu vetfangi á staði, einkanlega í hafnir utan Reykjavíkur og Akureyrar. Ég ætla að nálgast málið aðeins út frá þolmarkaumræðunni.

Það þarf auðvitað að kanna og meta álag á samfélögin. Þau stýra jú sjálf skipakomum. Það þarf að kanna álag og meta á umhverfi, bæði staðbundið og í víðara samhengi og það þarf að setja fram eðlilegar og skýrar kröfur á útgerðir, bæði um losun innan íslenskrar efnahagslögsögu sem í höfnunum sjálfum. Það kallar á eftirlit og réttan rafbúnað í höfnum. Við skulum fara betur ofan í megavattafjöldann síðar.

Það þarf líka að hvetja samfélög sem taka við skemmtiferðaskipum til að miða móttökurnar við næga samstöðu heima, þ.e. íbúana, og það verður að hvetja ferðamálayfirvöld og markaðsstofur til að miða við að dreifa álagi af völdum skemmtiferðaskipakoma. Það hefur komið fram í umræðunni. Ég vil bara ítreka það.

Ég vil hins vegar minna á nokkuð sem enginn hefur komið inn á hér, sem er björgunarmiðstöð sem þarf að vera á landinu, vegna þess að okkur kann að vera mjög mikill vandi á höndum ef sjóslys verða af þeirri stærðargráðu sem við gætum búist við. Það þarf mjög vandlegrar skoðunar við hvernig við gætum sinnt því. Þetta hlýtur að verða alþjóðleg björgunarmiðstöð.

Að lokum vil ég fagna kolefnisjöfnun skemmtiferðaskipakoma á Íslandi og tel í raun og veru að hún ætti að vera regla. Mjög greið og góð regla.