148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:08]
Horfa

Páll Magnússon (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég hef út af fyrir sig ekki sterkar skoðanir á því hvort það sé vænlegra eða betra að fólk hafi kosningarrétt eða öðlist kosningarrétt 18 ára eða 16 ára. Mér finnst hins vegar ákveðin rökleysa eða þversögn felast í því að ætla að breyta kosningarréttinum eða -aldrinum en ekki kjörgenginu. Ef menn segja núna að þetta sé til þess að auka sjálfsögð áhrif ungs fólks, að það hafi eitthvað um það að segja hvernig niðurstöður kosninga verða í sveitarfélögunum, hvers vegna í ósköpunum á þá ekki að hafa kjörgengið með? Af hverju má þetta fólk þá ekki bjóða sig fram og hafa áhrif innan sveitarstjórna og bæjarstjórna? Þess vegna finnst mér ekki að slíta eigi þetta tvennt í sundur. Ég mun leggjast gegn því og kalla eftir því: Af hverju ekki að ganga alla leið? Ég gæti hugsað mér að styðja frumvarp af því tagi. (Gripið fram í.)