148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:42]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Fyrst hér var minnst á Martein Mosdal þá fannst mér hann alltaf skemmtilegasti vinstri maðurinn sem ég hafði kynnst. [Hlátur í þingsal.] Ég var að vísu ekki sammála honum um margt en ólíkt mörgum hér var hann þó samkvæmur sjálfum sér. Keyrði bara austur á morgnana og vestur á kvöldin. [Hlátur í þingsal.]

Þetta snýst um að vera svolítið samkvæmur sjálfum sér. Ég er ekki á móti því að 16 ára kjósi. Mér er sama þó að þeir væru 15 ára. Mér er sama þótt þeir færu í ríkið, þótt þeir giftu sig, þeir tækju bara ábyrgð á sjálfum sér því að við treystum þeim til að taka þá ábyrgð.

En þegar ég byrjaði í pólitík var þetta spurningin um að stjórnmálamenn kæmu ekki nálægt börnum því að það væri barnaverndarmál. Það var bara barnaverndarmál; það mætti ekki koma nálægt börnum, ekki rugla huga þeirra. (Gripið fram í: En þau mega vera í flokknum þínum, Brynjar?) Þau mega vera í flokknum. Það er einmitt þroskaferlið, að byrja á að vera í flokknum, [Hlátur í þingsal.] byrja á að koma í flokkinn, (Forseti hringir.) og svo þegar búið er að þroska þau þar, þá geta þau kosið. [Hlátur í þingsal.]