148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst menn að hluta til vera að ræða mörg skyld mál en að öðru leyti óskyld. Þetta er ekki þannig að þeir sem ekki eru hrifnir af þessu þingmáli, eins og það lítur út hér í þingsal, séu alfarið gegn því að færa þessi réttindi til 16 ára Íslendinga. Það sem er verið að benda á er meðal annars það að það er ekki samkvæmni í því að veita kosningarrétt en gefa viðkomandi ekki rétt á að bjóða sig fram, að veita kosningarrétt til sveitarstjórnar en ekki til Alþingis — hvers vegna ekki? Að greiða barnabætur til fólks sem ekki getur ferðast án leyfis foreldra en veita því þessi réttindi en ekki önnur þau sem ég hef hér talað um er gallinn á þessu þingmáli.

Það eru sjónarmið sem við tölum fyrir og teflum fram sem gagnrýni á þingmálið. Það er ekki það sjónarmið — já, hv. þm. Björn Leví getur skotið sig í hausinn hér með táknrænum hætti — það er ekki gagnrýni sem gengur út á það að 16 ára eigi ekki að fá kosningarrétt.