148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

atkvæðagreiðsla um breytingartillögur.

[15:15]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vekur athygli á því að hér var um að ræða breytingartillögur sem ákvörðuðu heila grein í frumvarpi. Ekki var um að ræða orðalagsbreytingu inni í grein eða annað slíkt. Það voru tveir valkostir í boði sem hvor um sig orðaði lagagreinina í heild sinni. Þegar ljóst er fyrir fram að báðar slíkar tillögur verða alltaf bornar upp ætti röðin í sjálfu sér ekki að þurfa að skipta miklu máli.

Í þessu tilviki var vissulega ekki erfitt að úrskurða hvor gengi lengra en í öðrum tilvikum getur oft verið erfitt að útkljá um það. Þess vegna eru þær venjur hér uppi hafðar að allar breytingartillögur koma til atkvæða. Það er sérstakt við þingsköp Alþingis umfram það sem á sums staðar við í almennum fundarsköpum, þykist forseti vita.