148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:19]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eflaust og alveg örugglega þarf að taka mið af þeirri gagnrýni sem hefur verið á vaxtabótakerfið þannig að það nái sannarlega utan um þá sem lakast standa. Þar skal ég vinna af heilindum með stjórninni ef menn vilja bæta kerfið og auka fjármuni í það. Mig minnir að 26 æðstu stjórnendur bankanna fái í laun einn fjórða af vaxtabótakerfinu í dag. Það segir nú kannski dálítið.

Hvað varðar tryggingagjaldið er ég algerlega sammála hv. þingmanni. Sjálfur hef ég rekið fyrirtæki í rúmlega 20 ár, pínulítið fyrirtæki sem byggir nánast eingöngu á huganum. Þetta eru bara laun. Það væri mjög skilvirk aðgerð og ég myndi styðja ríkisstjórnina í öllum skrefum til lækkunar á tryggingagjaldinu.