148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[22:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sú tillaga sem hér liggur fyrir að fjármálastefnu lýsir góðri stöðu ríkissjóðs og góðri stöðu opinberra fjármála. Hún byggir á því að við horfum fram á dvínandi hagvöxt og það er þörf fyrir það að ríkið nýti það svigrúm sem það hefur til að byggja upp innviði, sem er það sem hefur verið kallað eftir í samfélaginu en er líka til marks um góða hagstjórn. Það er líka áhugavert að benda á það að þessi fjármálastefna er sú ítarlegasta sem hefur verið lögð fram til þessa, til muna greinarbetri en þær fjármálastefnur sem hafa áður verið lagðar fram. Þannig að ég myndi segja að við séum hér í lærdómsferli með það hvernig við getum horft til lengri tíma í fjármálum og að okkur sé að fara fram í þeirri stefnumótun og að þessi fjármálastefna sé töluvert raunsærri en þær sem við höfum áður séð.

Það er horfið frá þeirri stefnu sem hér áður var í tíð síðustu ríkisstjórnar um sérstakt útgjaldaþak og horft til þess hvernig við getum náð samræmi í því að lækka með markvissum hætti skuldir ríkissjóðs en byggja líka upp þá nauðsynlegu innviði sem við eigum öll að vera sammála um að sé eitt mikilvægasta hagsmunamál þessa samfélags. Þannig að ég mun alfarið leggjast gegn þessari frávísun og styð það að fjármálastefna verði afgreidd hér á Alþingi.