148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

dagur Norðurlanda.

[10:32]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vekur athygli hv. alþingismanna á því að í dag, 23. mars, er dagur Norðurlanda. Norræn félög alls staðar á Norðurlöndunum halda daginn hátíðlegan, draga fána að húni og hvetja til þess að fánum Norðurlandanna sé flaggað. Af þessu tilefni er nú fánum Norðurlandanna skartað hér við inngang Alþingishússins.

Dagur Norðurlanda er haldinn hátíðlegur árlega í tilefni þess að 23. mars árið 1962 var Helsingfors-sáttmálinn undirritaður. Sáttmálann má kalla vísi að stjórnarskrá Norðurlanda og hann er hornsteinn samstarfs ríkjanna sem kristallast í Norðurlandaráði. Sáttmálinn tryggir öllum ríkisborgurum Norðurlanda meðal annars jafnt aðgengi til náms og vinnu hvar sem er á Norðurlöndunum.

Þá má geta þess að í tilefni dagsins standa Norræna félagið og Norræna húsið fyrir dagskrá í Norræna húsinu.