148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í dag birtist í DV stutt grein um fimm hluti sem ég gæti spurt um. Með leyfi forseta:

„Þetta óskiljanlega. Hvað gerir Smári McCarthy við 134 þúsund kallinn sem hann fær fyrir að búa á Hverfisgötu? Og er ekki ósanngjarnt að ég fái engan pening fyrir að búa í Ljósheimum? Fyrirspurn til félagsmálaráðherra.

Stóra spurningin. Er veruleiki okkar draumsýn? Erum við þá ábyrg fyrir hlutum sem gerast í hliðstæðum veruleika? Fyrirspurn til ferðamálaráðherra.

Skóleysið. Fá þingmenn niðurgreidda skó sem anda? Fyrirspurn til umhverfisráðherra.

Það sem enginn vill vita. Hvenær verður næsta bankahrun? Fyrirspurn til forsætisráðherra.

Það sem enginn vill svara. Af hverju fékk Ögmundur Jónasson að afþakka ráðherralaun ef það má ekki? Og af hverju hefur enginn annar reynt að afþakka sporslur? Ef ég skrái mig heima hjá Smára get ég líka fengið 134 þúsund kall? Fyrirspurn til fjármálaráðherra.“

Önnur hugmynd kom af Twitter frá @BirkirGudmundar, með leyfi forseta:

„Fyrirspurn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um eldun hafragrauts. Er hæstv. ráðherra að vinna með rauðan Solgryn eða lumar hann á einhverju öðru leynivopni? Hvert er kjörhlutfall vatns og hafra? Setur hæstv. ráðherra kíví eða banana út í grautinn eða er það bara salt af gamla skólanum?“

Virðulegi forseti. Öllu gamni fylgir alvara. Fyrirspurn mín um nafn höfuðborgar Íslands tengist skráningum á fæðingarstað barna. Er það rétt að barn sem fæðist á Norðfirði sé skráð með fæðingarstað í Fjarðabyggð? Að barn sem fæðist í heimafæðingu í Kjós sé skráð í Reykjavík en ekki Reykjavíkurborg? Að barn sem fæðist í Grímsey sé skráð með fæðingarstað á Akureyri en ekki Akureyrarkaupstað eða bara í Grímsey, á lögheimili? Svo er líka spurning hvort það eigi að skrá þetta yfir höfuð. Kannski finnst einhverjum þetta ekki mikilvæg spurning. Ég virði það alveg en mér finnst þetta mikilvæg spurning.