148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[11:47]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir hans ágæta innlegg. Ákveðin samkvæmni er stef í því sem hann hefur talað um, að það eigi að vera samkvæmni milli lögræðis og síðan kosningarréttar. Mig langar örlítið að spyrja hann hvort hann sé samkvæmur sjálfum sér þegar kemur að rökstuðningi í þessu máli og tengja það við annað mál sem hér hefur verið til umræðu í dag.

Ég nefndi í atkvæðaskýringu með þessu máli í gær að ég hefði samúð með því að það væri stutt til stefnu, ég hefði samúð með þeim rökum að kannski væri ekki ákjósanlegt að breyta kosningalögum svona skömmu fyrir kosningar en það væri annað sem vægi þyngra. Ég hyggst vera samkvæmur sjálfum mér í því að láta þau rök ekki vega þungt þegar kemur til umræðu um annað mál sem verður hér á dagskrá.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Er ekki rétt að yfirfæra þau rök sem hann hefur fært hér fyrir því að það sé óheppilegt að breyta kosningalögum með svo skömmum fyrirvara, sérstaklega í ljósi þess eins og hann nefndi að málið er umdeilt og skiptar skoðanir um það innan þingsins? Er ekki einboðið að hið sama gildi um annað mál sem hér á að taka til umræðu á eftir þar sem verið er að breyta fyrirkomulagi kosninga skömmu fyrir kosningar og það er augljóst að það eru skiptar skoðanir um það mál og jafnvel þingflokkar klofnir?