148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[15:16]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði nú ekki að það væru annarlegar hvatir sem lægju að baki. Popúlismi telst ekki til annarlegra hvata. Bara venjulegt lýðskrum. Það er ekkert annarlegt við það.

Þetta eru ekki smávægilegar breytingar. Það eru miklar breytingar að breyta kosningaaldri. Og það eru praktísk vandamál í kringum það. Það verður ekkert hjá því komist að viðurkenna það. Ég tók meira að segja dæmi um praktískt vandamál, þ.e. að kæra inn á kjörskrá. Það er til dæmis eitt. Við erum ekkert á móti breytingum. Allar alvörubreytingar í þessu samfélagi frá stríðslokum hafa verið á vegum Sjálfstæðisflokksins. Það vill svo til. (ÞorstV: Þær hafa nú verið heldur fáar.) Nei. Við erum komin í stórkostlegt samfélag. Besta samfélag í heimi, segja sumir.

Þannig að þetta er allt einhver misskilningur. Það sem skiptir máli, hv. þingmaður, er að svona breytingar, sem eru heilmiklar í raun, séu gerðar í sæmilegri sátt. Ég er alveg viss um að hægt er að ná sátt í þessu máli. En menn vilja það ekki því að menn þurfa að keyra þetta fram akkúrat fyrir þessar kosningar. (BjG: Þetta var lagt fram í fyrra, Brynjar. …) Þetta var lagt fram í desember í fyrra, þingmannamál, lögð fram í desember, hafa aldrei hingað til, svo ég viti til, náð afgreiðslu í mars. (BjG: Þetta er í fimmta sinn sem þetta mál er lagt fram. Ég hlusta ekki á þetta.) (Gripið fram í.) Í mars. (ÞKG: Við vorum að klára eitt í morgun.) Í mars. Það hefur aldrei gerst svo ég viti til. (ÞKG: Í morgun.)(BjG: Jú, það var nú bara sagt hérna áðan.) En frumvarpið er alveg jafn vont fyrir það. Menn geta aldrei sagt það, og alls ekki, hv. þm. Þorsteinn Víglundsson, að hér sé eitthvað annað á ferð en kosningaskjálfti fyrir næstu kosningar.