148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:02]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir hans ágætu ræðu. Til að byrja með vil ég taka fram að ég ætla ekki að væna þingmann um að ásetningur hans í málinu stýrist af því hvort hann haldi að flokkur hans græði eða tapi. Ég trúi því að þingmaður taki ákvörðun um þetta mál sem önnur og réttindi borgaranna sem byggð er á einhverjum stærri hugmyndum en það. Það geri ég svo sannarlega.

Ég hef ekki séð neitt í skoðanakönnunum eða öðrum þeim gögnum sem ég hef séð sem bendir til þess að flokkur minn njóti t.d. yfirburðafylgis meðal ungs fólks; þótt það væri gaman er það ekkert tilfellið sem stendur. En ég tek ekki ákvörðun út frá því í þessu máli.

Mig langar aðeins að grípa boltann þar sem þingmaðurinn sleppti honum í síðara andsvari sínu og í ræðunni. Mér finnst stundum eins og þeir þingmenn sem tala á móti málinu séu að kalla eftir einhvers konar heildstæðri stefnumótun, ef við getum orðað það sem svo. Það er oft tilfinning mín þegar menn kalla eftir heildstæðri stefnumótun að þeir séu í rauninni ekki að kalla eftir neinu. Menn vita auðvitað að það tekur bara tíma og það getur þvælst. Oft kemur ekkert út úr slíkri heildstæðri stefnumótun. Ég velti því líka fyrir mér hvort það sé sannarlega svo nauðsynlegt að aldursmörk séu sem oftast svipuð. Truflar það t.d. hv. þingmann eitthvað að mörk um útivistartíma barna liggi við 16 ár en ekki 18 ár? Væri það betra og rökréttara að hans mati að setja lög um hvenær 18 ára einstaklingar mættu vera úti á nóttunni en ekki 16 ára, til að gæta samræmis? Truflar þessi mismunur hann?