148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:30]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það geti átt við eins og hv. þingmaður sagði að stundum breytist efnisleg afstaða manna á milli 2. og 3. umr. Það held ég sé þá helst þegar málin breytast á milli 2. og 3. umr., en hv. þingnefnd hefur einmitt fjallað um þetta mál á milli umræðnanna, skilað því frá sér óbreyttu og hér er það. Ég veit það náttúrlega ekkert frekar en hv. þingmaður hvort afstaða einhverra þingmanna kunni að hafa breyst þarna á milli, en ég leyfi mér hins vegar að efast um að svo sé. Ég minni hv. þingmann á það að munurinn sem stendur út af þarna er ekki um það hvort hv. þingmenn eru fylgjandi því að 16 ára ungmenni fá kosningarrétt. Spurningin er bara hvort þau fái kosningarrétt í vor eða eftir fjögur ár.