148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa spurningu frá hv. þingmanni vegna þess að þetta er einmitt líka einn kjarni málsins. Því miður falla fatlaðir og hreyfihamlaðir einstaklingar alltaf á milli þilja. Þegar ég horfði á þessar fimm frambærilegu stúlkur með umboðsmanni barna á vegum UNICEF í þinghúsinu var fyrsta hugsunin mín: Hvar eru drengirnir, hvar eru fötluðu einstaklingarnir eða þeir hreyfihömluðu? Mér fannst eiginlega sorglegt þegar í ljós kom að það var enginn. Ég veit ekki hvort það var fullreynt að fá þessa einstaklinga þarna inn.

Það er líka annað í þessu, við erum að tala um fatlaða einstaklinga sem eru kannski 16, 17 og 18 ára og, hugsið ykkur, við erum að segja að þeir megi kjósa en á sama tíma eru þessir fötluðu einstaklingar á vinnumarkaði, hafa kannski fæðst með sína fötlun, og þá geta þau ekki farið að vinna vegna þess að ef þau eru með einhverja vinnu kemur króna á móti krónu skerðing. Það koma alls konar skerðingar sem við erum enn með inni til að valda fötluðum einstaklingum erfiðleikum.

Við setjum það ekki í forgang á þingi að taka þessar hindranir í burtu, að þau geti unnið án skerðingar og framfleytt sér sómasamlega. Nei, nei, látum þau kjósa í sveitarstjórnarkosningum. Það bætir allt.